Hólasport Fjórhjólaleiga og Jeppaferðir
Hólasport rekur fjórhjólaleigu við Efri-Vík ,Hótel Laka í Landbroti, 4 km frá Kirkjubæjarklaustri. Aðeins 3 tíma akstur frá Reykjavík. Hægt er að fá gistingu á hótelinu, láta dekra við sig í mat og drykk og fara í frábærar ferðir á fjórhjólum og breyttum jeppum . Umhverfið sem við ferðumst um er margbrotið, hraun, sandar, gervigígar, vatn ,fjara og hellar. Við okkur blasa Öræfajökull og Mýrdalsjökull, þar sem þeir teygja sig stoltir til himins og til suðurs hvílir augað í óendanleika himins og hafs. Við munum gera ævintýraferðina ykkar að ógleymanlegri skemmtun. Í allar fjórhjólaferðir sem við höfum í boði fer leiðsögumaður með í ferðina, kennir ykkur á hjólin og fer yfir öryggisreglur. Hólasport fer einnig í skipulagðar dagsferðir á breyttum jeppum. Við bjóðum upp á ferðir í Lakagíga, þaðan sem eitt stærsta hraun rann á sögulegum tíma. Einnig förum við í frábærar 2 til 3 tíma styttri ferðir á bílum t.d. í fjöruna þar sem við skoðum gamalt skipsflak, förum upp í vita þar sem við sjáum í allar áttir ásamt því að skoða gamallt skipbrotsmannaskýli sem hefur verið breytt í sögusafn. Einnig er hægt að fara í jeppaferð og skoða Fagrafoss, og enda á því að ganga niður eftir Fjaðrárgljúfri. Frábær útsýnisferð. Við tökum að okkur Sérferðir, hvort sem er á fjórhjólum eða jeppum sem við sérsníðum eftir þörfum í samráði við ykkur.

















